Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Aftureldingar fór fram fimmtudaginn 10. apríl 2025 í Vallarhúsinu að Varmá. Á dagskránni voru meðal annars skýrsla stjórnar og yfirþjálfara, reikningar deildarinnar, áætlun fyrir árið 2025, stjórnarkjör og önnur mál.
Stjórn deildarinnar skipa Heiðar Logi sem formaður, Berglind Bergsdóttir sem gjaldkeri og meðstjórnendur eru Gísli Jón, Árni Geir, Bjarki Beck og Hrannar. Yfirþjálfari er Sævaldur Bjarnason og í þjálfarateymi deildarinnar eru einnig Ólafur Jónas, Bergsveinn Jóhannesson, Eiríkur Karlsson, Hlynur Logi Ingólfsson, Óskar Víkingur Davíðsson og átta aðstoðarþjálfarar fyrir yngstu hópana.
Árið 2024 var ár hrós og viðurkenninga.
Deildin var sæmd hvatningarbikar aðalstjórnar UMFA og einnig hvataverðlaun UMSK fyrir metnaðarfulla körfuknattleiksdeild og einnig fengu þrír leikmenn úr deildinni að spila með U15 landsliðinu á alþjóðlegu móti í Finnlandi. Fimm leikmenn voru valdir í æfingahópa yngri landsliða fyrir sumarið 2025 og þar af voru tveir í U15 og þrír í U16.
Drengir fæddir 2009 urðu Íslandsmeistarar í 9. flokki í fyrsta skipti í sögu KKD- Aftureldingar og var fjöldi iðkenda yfir 200 á árinu, þar af um 180 í yngri flokkum og 20 í meistaraflokki. Deildin sendi lið til keppni í öllum flokkum sem keppa til íslandsmóts 5-11.flokkur og í fjölmennari flokkum voru tvö lið. Fjölgun í yngstu hópunum 1-4 bekk var mikil og t.d. voru 52 skráðir í 3.–4. Bekk í vetur.
Mikill vöxtur hefur verið í yngstu flokkunum, þar sem 1.–4. bekkur hefur mætt á fjölmörg mót og þátttakan er yfir 55 krakkar. Stelpuæfingar hafa verið haldnar tvisvar í viku og þróunarverkefni hafa verið reynd, en aðstöðumál eru víða ábótavant – sérstaklega í Lágafelli þar sem allt að 50 krakkar æfa í litlum sal.
Keppnisferðir á árinu voru margvíslegar; 2009 árgangur fór í Scania mótið í Danmörku og EYBL í Lettlandi, og árgangar 2011 og 2012 stefna á ferð til Duke University í júní 2025 með miklu skipulagi og stuðningi foreldra.
Meistaraflokkur karla hóf þátttöku í 2. deild samkvæmt ákvörðun aðalfundar 2024. Hópurinn var 18 manna en fækkaði vegna meiðsla og brotthvarfs leikmanna. Liðið var að mestu skipað heimamönnum með viðbót á venslasamningum og endaði í 10. sæti deildarinnar. Þó var baráttan mikil og margir leikir tapaðir með litlum mun.
Markmið meistaraflokks 2024/25 eru að festa liðið í sessi og fara í gegnum heilt tímabil til að læra og þróast. Fjármögnun liðsins kom meðal annars úr samvinnu við Aftureldingu við stórviðburði eins og þorrablót og kosningar.
Aðstöðumál eru enn vandamál. Í sal 3 á Varmá eru engir æfinga- eða keppnistímar á virkum dögum. Salur 2 er ekki hentugur til keppni og skortir klukku. Í Lágafelli eru nýjar aðalkörfur, en hliðarkörfur og aðstaða fyrir áhorfendur eru ófullnægjandi.
Framtíðarsýn deildarinnar felst í að efla yngri flokkana áfram og fjölga þeim, þar með talið stofnun 11. flokks karla næsta vetur. Þjálfarar hafa verið stöðugir og áfram verður unnið að kynningu á starfi deildarinnar, meðal annars með myndböndum. Einnig er ætlunin að efla sumarnámskeiðin og búa til sterkari grunn fyrir framtíðar meistaraflokk.
Í lok fundar var farið yfir ársreikninga og fjárhagsáætlun fyrir 2025. Þá buðu allir núverandi stjórnarmenn sig fram til áframhaldandi setu, en áhugasamir aðrir gátu einnig boðið sig fram. Sumarnámskeið 2025 verða með sama krafti og áður, með nýjungum eins og körfubolta alla virka daga í sumar fyrir 1.–10. bekk.