Skýrsla meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna

Meistaraflokkur kvenna hefur spilað í Grill 66 deildinni í vetur en liðið féll úr Olísdeildinni í fyrra vor, eftir umspil sem endaði í 5 spennandi leikjum við Gróttu þar sem stelpurnar okkar lutu því miður í lægra haldi. Núna þegar þetta er skrifað er deildarkeppninni lokið og liðið endaði í 3. sæti með 27 stig og er því aftur á leið í umspil um sæti í efstu deild.  Tímabilið hefur gengið að mestu vel þó einn og einn leikur hafi gengið brösulega, en liðið er vel skipað og til alls líklegt.  Í bikarkeppninni laut liðið í lægra haldi fyrir ÍR í fyrstu umferð í janúar.

Þjálfarateymið tók breytingum sl. sumar en þá hættu þeir Guðmundur Helgi Pálsson og Einar Bragason eftir rúmlega fjögurra ára farsælt starf.  Við liðinu tók Jón Brynjar Björnsson og honum til aðstoðar er Örn Ingi Bjarkason.  Þá hefur Davíð Svansson sinnt markmannsþjálfun og Unnar Arnarsson séð um sjúkraþjálfun.

Leikmannahópurinn tók einnig breytingum á milli tímabila en Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir markvörður kom frá HK, Hulda Dagsdóttir frá Noregi, Áróra Eir Pálsdóttir frá Víking og Úlfhildur Tinna Lárusdóttir tók aftur fram skóna eftir meiðsli.  Sylvía Björt Blöndal hélt svo alfarið utan til náms, Hildur Lilja Jónsdóttir gekk til liðs við Fram, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir hætti og Rebecca Fredrika Adolfsson fór heim til Finnlands. Nú í lok tímabils eru nokkrar efnilegar stelpur úr þriðja flokki að stíga upp og er ánægjulegt að sjá hjá þeim framfarir og áhuga.  Í vetur hefur Hulda Dagsdóttir staðið sig mjög vel og skorað 107 mörk í deildinni, en næstar koma Katrín Helga með 83 mörk og Lovísa Líf með 67.

Á lokahófi meistaraflokkanna vorið 2024 voru eftirtöldum leikmönnum veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur, Susan Barinas mikilvægasti leikmaðurinn, Saga Sif Gísladóttir besti leikmaðurinn, Hildur Lilja Jónsdóttir sú efnilegasta og Ragnhildur Hjartardóttir besti liðsmaðurinn, auk þess sem Anna Katrín Bjarkadóttir var valinn mikilvægasti leikmaður umspilsins.

Meistaraflokksráðið hefur verið skipað áfram sama fólki frá því í fyrra en Davíð Svansson tók við formennsku af Erlu Dögg Ragnarsdóttur sem er áfram sem meðstjórnandi en auk þeirra eru Margrét Vilhjálmsdóttir gjaldkeri og Bjarki Sigurðsson meðstjórnandi.  Markmið ráðsins er alltaf að halda uppi góðri umgjörð um stelpurnar og þær finni fyrir stuðningi innan vallar sem utan.  Við stefnum alltaf hærra.

Áfram Afturelding.

 

Davíð Svansson

Formaður meistaraflokksráðs kvenna í handbolta