Skýrsla meistaraflokks karla
Tímabilinu 23/24 lauk á eftirminnilegan hátt þar sem strákarnir okkar komust í úrslitaeinvígið við FH. Tveir leikir við FH fóru fram að Varmá þar sem áhorfendamet var slegið þegar um 1.600 áhorfendur mættu á leikina. Einvígið var magnað og stóðu okkar menn sig gríðarlega vel. FH vann einvígið að lokum með þremur sigrum á móti einum sigri hjá okkur. Þorsteinn Leó kvaddi okkur að sinni að loknu tímabilinu og hélt í atvinnumennsku þar sem hann spilar með Porto.
Talsverðar breytingar voru á leikmannahópnum sumarið 2024. Markmiðið var að búa til pláss fyrir uppalda yngri leikmenn og styrkja liðið á skilvirkan hátt.
Tímabilið 24/25 hófst í byrjun september og fórum við vel af stað. Við vorum í toppbaráttu allt tímabilið og enduðum deildarkeppnina í þriðja sæti, örfáum stigum frá toppsætinu.
Úrslitakeppnin hófst í Apríl og var mótherji okkar í átta liða úrslitum ÍBV. ÍBV eru ávallt erfiður andstæðingur og sérstaklega erfiðir heim að sækja. Með magnaðri seiglu og karakter tókst okkar mönnum að slá ÍBV út með tveimur sigrum; 2-0. Næst á dagskrá er einvígi í undanúrslitum við Val og fer fyrsti leikur fram þann 17. apríl næstkomandi, en þess má geta að við mættum einnig Val í undanúrslitum í fyrra á leið okkar í úrslitaeinvígið.
Við erum sérstaklega stolt af þróun yngri leikmanna hjá okkur í vetur. Uppaldir leikmenn hafa verið að fá meira pláss í meistaraflokknum og eru farnir að gera sig gildandi sem lykilmenn í liðinu. Í vetur var samið við átta uppalda leikmenn sem eiga að vera undirstaða meistaraflokks til framtíðar. Auk þess var samið við sjö leikmenn í þriðja og fjórða flokki með svokölluðum afrekssamningum; þar sem efnilegustu leikmenn Aftureldingar stíga stórt skref í átt að hlutverki í meistaraflokk.
Á komandi tímabili munum við tefla fram U-liði í næst efstu deild; Grilldeildinni. Nokkur fjöldi leikmanna er að ganga upp úr þriðja flokki og munu þeir vera undirstaða U-liðsins. Einnig er mikilvægt að vera með vettvang fyrir leikmenn sem eru í meistaraflokki til að fá fleiri mínútur á parketinu í formlegum kappleikjum til að þróa og bæta leik sinn.
Kaflaskipti verða í sumar í þjálfarateyminu þegar Gunnar Magnússon kveður Aftureldingu. Gunnar hefur verið aðalþjálfari okkar í fimm ár og kunnum við honum bestu þakkir fyrir samstarfið. Gunnar hefur verið í fararbroddi innan Aftureldingar við að efla Handboltastarfið og lyft upp öllu umhverfinu í kringum meistaraflokkinn. Gunnar er fagmaður fram í fingurgóma og hefur smitað fagmennsku og metnað í klúbbinn í heild sinni. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að starfa með Gunnari undanfarin ár og kveðjum við hann með söknuði. Á tíma Gunnars hjá Aftureldingu var fyrsti titill sóttur í Mosfellsbæinn í 24 ár þegar við unnum bikarmeistaratitilinn 2023. Þá höfum við stimplað okkur inn sem eitt af toppliðum handboltans á Íslandi.
Það er yfirlýst stefna okkar að vera topp 4 klúbbur á Íslandi sem byggir grunnstoðir liðsins á uppöldum leikmönnum. Í því samhengi erum við gríðarlega stolt að hafa samið við 15 uppalda leikmenn í vetur. Þá höfum við sýnt það og sannað að Mosó er staðurinn fyrir efnilegustu leikmenn landsins sem vilja þróa leik inn og stefna á atvinnumennsku. Þorsteinn Leó tók skrefið í fyrra þegar hann samdi við Porto og nú nýlega samdi Birgir Steinn við Savehöf í Svíþjóð og mun hann ganga til liðs við Savehöf að loknu yfirstandandi leiktímabili.
Fyrir Mosó!
Sigurður Straumfjörð Pálsson Formaður meistaraflokksráðs karla