Félagsmenn Handboltadeildar

Skýrsla meistaraflokks kvenna
Meistaraflokkur kvenna hefur spilað í Grill 66 deildinni í vetur en liðið féll úr Olísdeildinni í fyrra vor, eftir umspil sem endaði í 5 spennandi leikjum við Gróttu þar sem stelpurnar okkar lutu því miður í lægra haldi. Núna þegar þetta er skrifað er deildarkeppninni lokið og liðið endaði í 3. sæti með 27 stig og er því aftur á leið í umspil um sæti í efstu deild.
Á lokahófi meistaraflokkanna vorið 2024 voru eftirtöldum leikmönnum veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur, Susan Barinas mikilvægasti leikmaðurinn, Saga Sif Gísladóttir besti leikmaðurinn, Hildur Lilja Jónsdóttir sú efnilegasta og Ragnhildur Hjartardóttir besti liðsmaðurinn, auk þess sem Anna Katrín Bjarkadóttir var valinn mikilvægasti leikmaður umspilsins.

Skýrsla meistaraflokks karla
Tímabilinu 23/24 lauk á eftirminnilegan hátt þar sem strákarnir okkar komust í úrslitaeinvígið við FH. Tveir leikir við FH fóru fram að Varmá þar sem áhorfendamet var slegið þegar um 1.600 áhorfendur mættu á leikina. Einvígið var magnað og stóðu okkar menn sig gríðarlega vel. FH vann einvígið að lokum með þremur sigrum á móti einum sigri hjá okkur. Þorsteinn Leó kvaddi okkur að sinni að loknu tímabilinu og hélt í atvinnumennsku þar sem hann spilar með Porto.
Við erum sérstaklega stolt af þróun yngri leikmanna hjá okkur í vetur. Uppaldir leikmenn hafa verið að fá meira pláss í meistaraflokknum og eru farnir að gera sig gildandi sem lykilmenn í liðinu. Í vetur var samið við átta uppalda leikmenn sem eiga að vera undirstaða meistaraflokks til framtíðar. Auk þess var samið við sjö leikmenn í þriðja og fjórða flokki með svokölluðum afrekssamningum; þar sem efnilegustu leikmenn Aftureldingar stíga stórt skref í átt að hlutverki í meistaraflokk.

Skýrsla barna- og unglingaráðs
Í stjórninni hafa verið Ólafur Hilmarsson formaður, Ingimundur Helgason meðstjórnandi, Einar Már Hjartarsson gjaldkeri og Gunnar Magnússon yfirþjálfari
Búið að er móta starf BUR vel síðustu ár og reksturinn gengur vel.
Almennt hefur starfið gengið mjög vel og teljum við okkur vera á réttri braut með starfið þó alltaf sjáum við hluti sem betur mega fara.Iðkendum heldur áfram að fjölga og þá sérstaklega hjá drengjum. Stelpum hefur fjölgað á aldrinum 6 – 13 ára en eins og staðan er í dag keyrum við 4. flokk og niður kvenna megin en mjög fámennt í 3. flokki og sá flokkur er varla starfandi.
Helsta barátta okkar er að stækka hlutfallið kvennamegin svo við getum innan nokkurra ára verið með kvennalið í efstu deild sem byggt er upp á okkar dömum. Á sama tíma og við höfum verið að fjölga iðkendum höfum við aldrei átt fleiri leikmenn í yngri landsliðum. Á árinu áttum við 19 leikmenn í yngri landsliðum (15-21 árs) karla.