Skýrsla stjórnar

Stjórn

Stjórn deildarinnar árið 2024:

Formaður – Rut Sigurðardóttir

Varaformaður –  Ragnheiður Arnadóttir

Gjaldkeri – Ingibjörg Marta Bjarnadóttir

Ritari – Málfríður Eva Jorgensen

Aðrir stjórnameðlimir – Ásgeir Sæmundsson

Breytingar urðu á stjórn deildarinnar á aðalfundi deildarinnar árið 2024.

Mannauðsmál

Vorönn 2024 voru 2 starfsmenn í 100% stöðugildi. Starfsmenn sem sinntu fullu starfi voru Bjarni Gíslason sem deildar og rekstrarstjóri og Anna Valdís Einarsdóttir sem yfirþjálfari keppnishópa. Árndís Birgitta Georgsdóttir og Kristín Rán Guðjónsdóttir voru í kringum 80% starfi sem þjálfarar. Önnur starfsgildi eða 47 þjálfarar voru í 40% starfshlutfalli og undir.

Haustönn 2024 voru 5 starfsmenn í 100% stöðu. Bjarni og Anna héldu áfram með sín verkefni og við bættust Árndís Birgitta, Eyþór Örn og Didrik Fröberg. Önnur starfsgildi eða 43 þjálfarar voru í 40% starfshlutfalli og undir.

Deildin leggur vinnu og fjármagn í þjálfun á yngri þjálfurum til að sporna við mannekluvanda í framtíðinni og styrkja bakland deildarinnar.

Húsnæði og Áhöld

Forgangsröðun deildarinnar í áhaldakaupum og búnaði er fyrst og fremst öryggismál en árið 2024 var stefnt á að kaupa stúku í þeim tilgangi að ná sterkari tengingu við forráðamenn iðkenda deilarinnar. Það tókst að safna fyrir 100 sæta stúku og koma henni fyrir inn í sal. Kostnaður við hana var í kringum 6 milljón krónur og hafði töluverð áhrif á rekturinn fyrir árið 2024.

Forgangslisti fyrir árið 2025 er en óákveðin.

Iðkendur

Fjöldi iðkenda á vorönn 2024 var rúmlega 500 iðkendur, sem er aukning frá vorönn 2023.

Fjöldi iðkenda á haustönn 2024 var 550 iðkendur sem er 10% aukning frá vorönn 2024.

Gaman að segja frá því að eldri iðkendur eru að koma aftur inn í starfið og upplifa sig part af hópum þrátt fyrir getubil og fjarveru. Iðkendur frá öðrum félögum eru að koma inn í deildina. Helsta aukning á iðkendafjölda er hjá leikskólahópum, 1. og 2. bekk og yngri keppnishópum.

Á haustönn 2024 voru 40 krakkar á aldrinum 4 og 5 ára á biðlista. Stefnt er að því að mæta þessari eftirspurn með auknu framboði árið 2025.

Búningar

Deildin hefur verið að lána út búninga án endurgjalds fyrir elstu iðkendur en núna hefur deildin breytt þessu og hér eftir kaupa allir iðkendur sína búninga. Sú stefna að lána búningana áfram án endurgjalds gengur ekki lengur upp þar sem iðkendum fjölgar hratt og deildin getur ekki staðið undir þeim kostnaði.

Nóvember 2024 fékk deildin þær fregnir að Icepharma sagði upp viðskiptasamningi við GK sem skapaði óvissu með keppnisfatnað. Deildin fjárfesti í keppnisfatnaði fram í tímann til þess að eiga nóg fyrir sína iðkendur.

Haustönn 2024 kaupir deildin ný þjálfaraföt á alla þjálfara en það er alltaf gert í byrjun veturs.

Sýningar og mótahald

Deildin fékk enga úthlutun fyrir mótahaldi frá FSÍ árið 2024.

Deildin stóð fyrir hefbundnum undirbúningsmótum og innanfélgasmótum fyrir yngri flokkana.

Sumarnámskeið og sumaræfingar

Fimleikadeildin bauð upp á 7 vikur af sumarbúðum eins og áður en þetta árið í samvinnu með sunddeildinni. Eins og árið áður var boðið upp á stakar vikur og einnig skráningar fyrir eða eftir hádegi til þess að veita foreldrum þann möguleika að tvinna saman önnur sumarnámskeið. Fimleikadeildin tók eitt skref lengra í þjónustu við samfélagið í Mosfellsbæ sumarið 2024 og bauð upp á heitan hádegismat.

Fimleikadeildin fékk kærkominn stuðning og styrk frá Mosfellsbæ í formi 8 starfsmanna sem komu úr unglinvinnu bæjarins.

Fimleikadeildin bauð einnig upp á sumaræfingar í júní og ágúst sem hafa vaxið í vinsældum og skráðu sig fleiri en árið áður sem við teljum að megi rekja til aukins áhuga og metnað iðkenda.

Árangur

Vorönn 2024 skráði deildin 14 lið eða 150 keppendur á 4 mót. Þegar skráningu var lokið á GK mótið yngri flokka sem er fyrsta mótið á árinu þá kom í ljós að Fimleikadeild Aftureldingar var orðið stærsta félagið í hópfimleikum yngri flokka á íslandi en rétt á eftir kom Fimleikafélagið Gerpla.

 

 

Úrslit móta

Heilt yfir eru lið deildarinnar að standa sig einstaklega vel þegar kemur að því að bera nafn deildarinnar fyrir dómara og áhorfendur. Liðin setja sér misjöfn markmið á hverju móti fyrir sig sem geta verið viss sæti, klára nýjar æfingar, ná betri liðsheild eða læra að stjórna kvíða og stressi. Liðin okkar eru almennt að koma vel út á mótum og standa í efstu 4 sætunum í hverjum flokki fyrir sig.

Helstu úrslit móta árið 2023:
  1. KKE flokkur Aftureldingar urðu Bikarmeistarar.
  2. flokkur Aftureldingar náði 3 sæti á Bikarmóti sem er besti árangur eldri stúlkna í sögu deildarinnar á Bikarmóti og náðu svo 2. sæti á Vormóti sem er síðasta mót vetursins.
  3. flokkur deildarinnar sem keppti í C deild sigraði öll mót vetursins. Þessi flokkur er einn af fjórum 4. flokkum deildarinnar.
  4. GK mót yngri flokka sigruðu KKY eldri flokkur mótið og yngra liðið komst í 3. sætið.
  5. GK mót stökkfimi náði lið deildarinnar 2. sæti af 21 liðum.
Landslið og úrvalshópar

Árið 2024 fór fram Evrópumót unglinga og fullorðinna, þar sem fimleikadeild Aftureldingar átti tvo drengi í landsliði unglinga. Guðjón Magnússon var í blönduðum flokki (mixliði) og Ármann Sigurhólm Larsen í drengaliðinu.

Drengirnir sýndu báðir ótrúlega hæfileika og andlegan styrk á þessu stórmóti. Guðjón tryggði sér Evrópumeistaratitil! Hann skaraði fram úr, sýndi ástríðu og leiðtogahæfileika sem gerðu liðinu kleift að keppa við bestu unglingana í Evrópu og sigra.

Ármann var ekki skemur framúrskarandi og sýndi einnig eftirtektarverða frammistöðu, þar sem hann leiddi sitt lið með hugrekki og eldmóð. Þessir drengir eru ekki bara afburða íþróttamenn heldur einnig fyrirmyndir fyrir aðra iðkendur í deildinni.

Deildin er stolt af því að hafa Guðjón og Ármann í sínum röðum og þeir hafa sannarlega sýnt að fimleikaíþróttirnar eru á réttri leið í Aftureldingu.

Æfingabúðir og aðrar ferðir

Farið var í reglulegar æfingabúðir til Keflavíkur í júní sem heppnaðist mjög vel og heldur líklega áfram árið 2025. Stefnt var að komast inn á Norðurlandamót unglinga í apríl sem gekk ekki nægilega vel og náði lið Aftureldingar ekki inn mótið.

Uppskeruhátíð Aftureldingar
Tilnefningar deilarinnar:

Tilnefning til íþróttamanns ársins – Guðjón Magnússon

Fimleikamaður ársins – Guðjón Magnússon

Fimleikakona ársin – Vala Björg Arnarsdóttir

Tilnefning deildarinnar til þjálfara ársins – Árndís Birgitta Georgsdóttir

Tilnefning deildarinnar til vinnuþjark ársins – Lena Dögg Ásmundsdóttir

Tilnefning deildarinnar til hvatabikar aðalstjórnar – Stjórn fimleikadeildar Aftureldingar

Niðurstaða uppskeruhátíðar:

Fimleikafólk ársins er valið innan fimleikadeildar af þjálfurum og stjórnarmönnum og er ekki valið af aðalstjórn en voru það Guðjón og Vala. Viðurkenningar sem eru veittar af aðalstjórn voru þátttökuverðlaun í landsliðsverkefni til Ármanns og Guðjóns. Guðjón fékk svo að deila viðurkenningunni Hvatabikar Aðalstjórnar með tveim liðum úr körfubolta og handbolta.

Áform um áhaldakaup

Árið 2025 stefnir fimleikadeildin á fjárfestingar í búnaði sem hjálpar við þjálfun á efsta stigi þar sem góðar líkur eru á að deildin verði með sinn fyrsta meistaraflokk næsta vetur.

Upptökubúnaður og sjónvörp sem fest eru á veggina í salnum. Með þessum búnaði ásamt tækni sem seinnkar upptöku í birtingu á skjáum gerir það að verkum að iðkendur geti fengið endurgjöf frá þjálfara um framkvæmd æfinga á meðan horft er á framkvæmdina sjálfa. Einnig ná iðkendur að meta öll stökk ekki bara þau stökk sem þjálfari nær að veita endurgjöf á.