Aðalstjórn félagsins 2024
Ásgeir Jónsson, formaður
Hrafn Ingvarsson, varaformaður
Hildur Björg Bæringsdóttir, gjaldkeri
Geirarður Þórir Long, ritari
Hildur Pála Gunnarsdóttir, meðstjórnandi
Inga Hallsteinsdóttir, meðstjórnandi
Níels Reynisson, meðstjórnandi
Árið 2024 einkenndist af áframahaldandi framfaraskrefum félagsins utan og innan vallar. Utan vallar voru stór skref tekin í uppbyggingu mannauðs og innviða. Einar Ingi Hrafnsson tók við sem framkvæmdarstjóri og ráðinn var rekstrarstjóri, Þórdís María Aikman, í fullt starf á skrifstofu félagsins sem starfar með framkvæmdarstjóra og íþróttafulltrúa, Hönnu Björk Halldórsdóttur. Lagning á nýju gervigrasi á aðalvelli félagsins og uppbygging nýs frjárlsíþróttavallar hófst og áframhaldandi samtal um þróun og hönnun þjónustubyggingu og stúku héldu áfram, framkvæmda sem lengi hefur verið beðið eftir og félagið leggur áherslu á að hefjist sem allra fyrst.
Innan vallar héldu félagsmenn áfram á að ná eftirtektarverðum árangri. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn, 50 ára starfsafmæli deildarinnar. Meistaraflokkar í blaki og handbolta börðust um alla titla líkt og undanfarin ár og varð meistaraflokkur kvenna í blaki bikarmeistari. Brotið var blað í sögu félagsins þegar 9.flokkur karla landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli þess í körfuknattleik og 3.flokkur karla í handknattleik bætt öðrum slíkum í safnið.
Þá náði íþróttafólk félagsins frábærum árangri í einstakingsíþróttum á árinu. Má þar nefna Íslandsmeistaratitla í Taekwondo hjá Aþenu Rán Stefánsdóttur og Wiktor Sobczynski, fimmta Íslandsmeistaratitilinn í karate í röð hjá Þórði Jökli Henryssyni og íslandsmeistaratitil hjá Jóhanni Arnóri Elíassyni í hjólreiðum (fjallabrun). Síðast en ekki síst var Guðjón Magnússon lykilmaður í unglingalandsliði Íslands sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum. Þá átti Afturelding tæplega 50 fulltrúa í landsliðsverkefnum á árinu.
Íþróttamaður ársins var valinn Þorsteinn Leó Gunnarsson handknattleiksmaður, 2.árið í röð. Þorsteinn var lykilmaður í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn vorið 2024. Að því loknu hóf hann atvinnumannaferil sinn hjá stórliði Porto í Portúgal. Íþróttakona Aftureldingar var valin Thelma Dögg Grétarsdóttir. Thelma var kosin besti íslenski leikmaðurinn í Unbrokendeild kvenna, var valin mikilvægasti leikmaður bikarkeppninnar þegar liðið landaði þeim stóra. Þá var Thelma fyrirliði A landsliðs kvenna sem tók þátt í Siver League keppni Evrópu vorið 2024.
Hefð er fyrir því að velja vinnuþjark félagsins, sem kemur úr röðum sjálfboðaliða. Að þessu sinni var valinn Leifur Guðjónsson. Leifur hefur unnið sjálfboðaliðastarf fyrir handknattleiksdeild í áratugi og verið ein helsta driffjöður starfsins um langt skeið.
Stöðugleiki einkennir fjölda iðkenda. Knattspyrnudeildin er stærst deilda með um 32% iðkenda, þá kemur fimleikadeildin með 29% og handknattleiksdeildin með 14%. Aðrar deildir eru fámennari. Samtals voru um áramót iðkendur 1.858 á aldrinum 4 – 18 ára í 11 deildum. Heildarfjöldi iðkenda á árinu 2024 var 2947.
Rekstur félagsins stendur vel og var í upphafi árs 2025 skrifað undir nýjan rekstrarsamning við Mosfellsbæ. Um er að ræða tímamótasamning sem festir í sessi nýtt starfsgildi á skrifstofu sem félagið hefur lengi barist fyrir.
Þetta tæpa ár á formannsstóli hefur verið mikill persónulegur heiður. Afturelding á og mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mér og það eru forréttindi að geta gefið til baka til félagsins. Fyrst sem iðkandi, síðar leikmaður, þjálfari og nú formaður. Áfram mun það vera megin áhersla mín að efla innviði og aðstöðu félagsins, þjónustu við félagsmenn og félagsmenningu. Okkar mesti styrkur liggur í hvort öðru.
Áfram Afturelding
Ásgeir Jónsson, formaður Aftureldingar